Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 175 . mál.


Nd.

819. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og leggur til að það verði samþykkt óbreytt eins og efri deild afgreiddi það.
    Umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar er birt sem fylgiskjöl með þessu áliti.

Alþingi, 3. apríl 1989.



Ragnar Arnalds,

Birgir Ísl. Gunnarsson,

Árni Gunnarsson.


form., frsm.

fundaskr.



Ragnhildur Helgadóttir.

Guðmundur G. Þórarinsson.

Þórhildur Þorleifsdóttir.



Ólafur Þ. Þórðarson.





Fylgiskjal I.


Fjárlaga- og hagsýslustofnun:


Umsögn um frumvarpið.


(14. febr. 1989.)



    Ráðuneytið sendir hér með umbeðna umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, sbr. bréf yðar dags. 9. febrúar 1989.
    Umrætt frumvarp felur ekki í sér veigamiklar breytingar frá gildandi lögum, nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, og þjónar í aðalatriðum þeim tilgangi að laga lögin að breyttum aðstæðum.
    Frumvarpið felur ekki í sér auknar fjárskuldbindingar fyrir ríkissjóð, heldur einungis rýmri heimild námsstyrkjanefndar til úthlutunar styrkja. Styrkfjárhæðir munu eftir sem áður fara eftir heildarfjárhæð sem veitt er til jöfnunar á námskostnaði á fjárlögum ár hvert (sbr. reglugerð nr. 528/1973).

F.h.r.


Indriði H. Þorláksson.


Guðmundur R. Guðmundsson.





Fylgiskjal II.


Fjárlaga- og hagsýslustofnun:


Kostnaðarmat.


(22. febr. 1989.)



    Ráðuneytið sendir hér með umbeðið kostnaðarmat vegna frumvarps til laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, sbr. bréf yðar dags. 9. febrúar 1989 og samtal okkar 21. febrúar. Árlegan kostnað ríkissjóðs vegna 3. gr. frumvarpsins má áætla 130 milljónir króna, miðað við eftirfarandi gefnar forsendur. Á fjárlögum fyrir árið 1989 er varið 50 milljónum króna til jöfnunar á námskostnaði, sem er tvöfalt hærri upphæð en árið áður.
    Forsendur til grundvallar kostnaðarmati:
–     Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins má áætla að u.þ.b. 2300 framhaldsskólanemar þiggi styrk á hverju ári og að sá fjöldi breytist lítið á næstu árum. Af þessum fjölda dvelja u.þ.b. 700 á heimavistum og njóta því ekki húsnæðisstyrks.
–     Samkvæmt upplýsingum þriggja skólamötuneyta: Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans að Laugarvatni og Héraðsskólans í Reykholti, er fæðiskostnaður á nemanda 115.600 kr. að meðaltali fyrir skólaárið 1988/1989. Hlutur launa er áætlaður þriðjungur af heildarfæðiskostnaði á nemanda, þ.e. 38.170 kr. á ári.
–     Áætlaður húsnæðiskostnaður er byggður á viðmiðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna, 5.397 kr. á mánuði á verðlagi í janúar 1989. Miðað við níu mánaða skólavist má áætla húsnæðiskostnað þeirra nemenda, sem ekki búa á heimavistum, 48.573 kr. á ári.
    Að gefnum þessum forsendum má áætla árlegan kostnað vegna einstakra liða 3. gr. frumvarpsins eftirfarandi, miðað við óbreytt verðlag:
a.     Ferðastyrkir: Óbreytt frá fyrra ári eða u.þ.b. 2,5 milljónir króna á ári.
b.     Fæðisstyrkir: 2300 nemendur x 38.170 kr. = 87,8 milljónir króna á ári.
c.     Húsnæðisstyrkir: 1600 nemendur x 50% af 48.573 kr. = 38,8 milljónir króna á ári.
d.     Sérstakir styrkir: Kostnað er ekki hægt að áætla þar sem styrkupphæðir byggjast á fjárveitingu hvers árs.
    Kostnaður samtals vegna a-, b- og c-liða er samkvæmt ofantöldu áætlaður 129,1 milljón króna á ári.

F.h.r.


Guðmundur R. Guðmundsson.